Menu
- Aðrar upplýsingar (e. Complementary information): Upplýsingar félagsins til haghafa, aðrar en þær sem er að finna í upplýsingagjöf í ársreikningi sem stjórn hefur staðfest. Þetta geta verið upplýsingar í ársskýrslu, árshlutauppgjöri eða samfélagsskýrslu sem stjórn hefur ekki staðfest með áritun sinni, upplýsingar á vef félagsins, í fréttatilkynningum eða upplýsingar sem félagið hefur birt með öðrum hætti opinberlega.
- Alþjóðlega reikningsskilaráðið (e. International Accounting Standards Board): Ráð sem ber ábyrgð á því að semja, þróa og gefa út alþjóðlega reikningsskilastaðla (e. International Financial Reporting Standards – IFRS).
- Alþjóðleg viðmið um samþætta upplýsingagjöf (e. International Integrated Reporting Framework): Viðmið um framsetningu samþættra reikningsskila sem gefin er út af The International Integrated Reporting Council. Viðmið þessi eru víða um heim nýtt sem fyrirmynd leiðbeininga fyrir lögaðila í einkarekstri og opinbera aðila á sviði viðbótarupplýsinga í frásagnarformi sem birt skal frá sjónarhóli stjórnunar í árlegum reikningsskilum. Viðmiðin leggja áherslu á hlutverk stjórnar og samþættingu upplýsingagjafar í skýrslu stjórnar við stefnumið viðkomandi félags og að við upplýsingagjöf um árangur af starfsemi félags, viðskiptalíkan, megináhættu sé tekið mið af þeim ólíku virðisþáttum sem starfsemi félaga byggir almennt á (fjölvirðisnálgun).
- Ábyrgðaraðilar stjórnarhátta (e. Those Charged with Governance): Aðilar sem bera ábyrgð á stjórnarháttum félags, m.a. að tryggja gæði árlegra reikningsskila þess og framsetningu þeirra. Stjórn og framkvæmdastjóri félags bera þessa ábyrgð en endurskoðunarnefnd hefur lögum samkvæmt einnig sjálfstæðu hlutverki hér að gegna. Sú ábyrgð felst m.a. í að hafa eftirliti með virkni áhættustýringar og þeim ferlum sem viðbótarupplýsingar í skýrslu stjórnar byggja á.
- Árangursvísar (e. performance indicators): Upplýsingar sem settar eru fram til að varpa ljósi á árangur af starfsemi félags og stöðu þess. Upplýsingar þessar geta verið í formi lykilmælikvarða eða umfjöllunar t.d. um stöðu einstakra umbótaverkefna og framgang þeirra.
- Árleg reikningsskil: Hugtak sem samsvarar því sem á ensku er vísað til sem annual report (d. årsrapport, no. årsberetning). Hugtakið tekur annars vegar til þess hluta ársreiknings (e. annual financial statements) sem gerður er í samræmi við ákvæði laga og settra reikningsskilareglna sem áritun endurskoðanda nær til og hins vegar til skýrslu stjórnar og tengdra skýrslna (e. management report and other related reports) sem stjórn viðkomandi félags skal staðfesta með undirritun sinni á ársreikning, sem liggur utan áritunar endurskoðanda á ársreikninginn.
- Áritun endurskoðanda (e. Audit opinion): Í áritun endurskoðanda kemur fram álit hans hvort ársreikningurinn sé í öllum veigamiklum atriðum í samræmi við viðeigandi lög og reikningsskilareglur. Framkvæmd endurskoðunar byggist á áhættugreiningu, prófunum á eftirlitsaðgerðum, greiningaraðgerðum og ítarlegum prófunum en aðgerðirnar eru háðar faglegu mati endurskoðandans og úrtaksvinnu. Ef endurskoðunin leiðir í ljós að ársreikningurinn gefi ekki glögga mynd eða veruleg takmörkun hefur verið á umfangi endurskoðunarinnar skal það koma fram í áritun ásamt ástæðu. Auk þess skal í áritun endurskoðanda koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Það álit endurskoðanda eða áritun endurskoðanda á ársreikning jafngildir ekki að réttmæti upplýsinga í skýrslu stjórnar hafi verið sannreynt, eins og fram kemur í nefndaráliti Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við lög nr. 102/2020.
- Ársreikningaskrá: Skrá sem starfrækt er í því skyni að taka á móti, varðveita og veita aðgang að skilaskyldum gögnum ásamt því að hafa eftirlit með ársreikningum hér á landi. Eftirlitshlutverk ársreikningaskrár er skilgreint í 117. gr. ÁRL þannig að ársreikningaskrá skuli gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum og samstæðureikningum og skýrslum stjórnar í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði þessara laga. Ársreikningaskrá skal jafnframt hafa eftirlit með reikningsskilum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS/IAS) sbr. ákvæði 94. gr.
- Eining tengd almannahagsmunum (e. Public Interest Entity – PIE): Lögaðili sem hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og félög sem teljast þjóðhagslega mikilvæg í skilningi laga nr. 102/2020, sbr. ákvæði 9 tl. 1 gr. laga um ársreikninga.
- Endurskoðunarnefnd (e. Audit Committee): Nefnd sem stjórn félags hefur skipað í samræmi við ákvæði 108 gr. laga um ársreikninga. Endurskoðunarnefnd skal m.a. hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits einingarinnar, innri endurskoðunar og áhættustýringar. Í lögum kemur fram að ábyrgð endurskoðunarnefndar sé óháð ábyrgð annarra aðila.
- Félög með skráð verðbréf á markaði: Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
- Fjárhagsupplýsingar (e. Financial reporting): Til fjárhagsupplýsinga félags telst (1) ársreikningur settur upp í samræmi við ákvæði settra reikningsskilareglna sem álit endurskoðanda í áritun nær til (e. annual financial statement) og árshlutauppgjör, (2) skýrsla stjórnar og aðrar tengdar skýrslur (e. Management report and other related reports) (3) aðrar upplýsingar (e. Complementary information) sem eru hluti af upplýsingagjöf félagsins til fjármagnsveitenda og annarra haghafa en sem stjórn hefur ekki staðfest með undirritun sinni á árleg reikningsskil.
- Fjölvirðisnálgun (e. Multi capital approach): Fjölvirðisnálgun er framsetning á árangri af starfsemi félags þar sem áhersla er lögð á gera grein fyrir þróun þeirra ólíku virðisþátta sem starfsemi fyrirtækja byggir almennt á. Virðisþætti í starfsemi fyrirtækja má samkvæmt þessum viðmiðum almennt flokka í: (1) fjármagn (e. financial capital), (2) mannauð (e. human capital), (3) sérhæfing og hugverkaréttindi (e. intellectual capital), (4) innviði (e. manufactured capital), (5) samfélags- og markaðstengsl (e. social and relationship capital) og (6) náttúruauðlindir (e. natural capital). Fjölvirðisnálgun er hryggjarstykkið í alþjóðlegum viðmiðunum um samþætta upplýsingagjöf (e. the Integrated Reporting Framework).
- Flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy). Reglugerð ESB sem ætlað er að auka gagnsæi í sjálfbærni fyrir fjárfesta, fjármálafyrirtæki og útgefendur fjármálaafurða. Reglugerðin skilgreinir þá starfsemi sem talin er stuðla að sjálfbærni og setur fram viðmið fyrir atvinnugreinar sem uppfylla þarf til að fyrirtæki geti talist stuðla að sjálfbærni.
- Fullnægjandi upplýsingar (e. comprehensive information): Upplýsingar í árlegum reikningsskilum teljast fullnægjandi ef þar er greint frá öllum mikilvægum upplýsingum um stöðu félagsins og starfsemi þess. Auknar kröfur eru gerðar til upplýsingagjafar félaga með skráð verðbréf þegar meta skal hvað teljast vera fullnægjandi upplýsingar.
- Frásagnarform (e. Narrative reporting): Viðbótarupplýsingar í skýrslu stjórnar sem gefa skulu glöggt yfirlit yfir árangur, stöðu, megináhættu og óvissuþætti sem starfsemin stendur frammi fyrir ætti að veita í formi frásagnar út frá sjónarhóli stjórnunar byggt á stefnumiðum félagsins og meginmarkmiðum með starfsemi þess. Þessar upplýsingar ættu að koma til viðbótar og er ætlað að bæta þær upplýsingar sem settar eru fram í staðlaðrar framsetningar upplýsinga (í formi talna og umfjöllunar í skýringum) í þeim hluta ársreiknings sem settur er fram í samræmi við ákvæði settra reikningsskilareglna og sem áritun endurskoðanda nær til.
- Glögg mynd (e. True and fair view): Glögg mynd ársreiknings er skilgreind í lögum um ársreikninga sem áreiðanleg framsetning á áhrifum viðskipta, öðrum atburðum og skilyrðum í samræmi við skilgreiningar og reglur um skráningu eigna, skulda, tekna og gjalda eins og kveðið er á um í lögum um ársreikninga, reglugerð og settum reikningsskilareglum. Áritun endurskoðanda á ársreikning miðast við að staðfesta að ársreikningurinn gefi glögga mynd. Rétt er að vekja athygli á því að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins er að finna umfjöllun um hugtakið glögga mynd eins og það er annars vegar skilgreint í lögum um ársreikninga og hins vegar út frá almennri merkingu þessa orðasambands, út frá orðanna hljóðan.
- Glöggt yfirlit (e. Fair review): Í lögum um ársreikninga segir að í skýrslu stjórnar skuli veita glöggt yfirlit yfir árangur í rekstri félagsins, stöðu og þróun og er það veitt með því að gera grein fyrir þróun þeirra ólíku virðisþátta sem starfsemin byggir á og stöðu þeirra þátta sem tengjast hæfi þess að skapa virðisauka í bráð og lengd. Upplýsingar þessar í skýrslu stjórnar skal veita í frásagnarformi út frá sjónarhóli stjórnunar með hliðsjón af stefnumiðum félagsins og skilgreindum meginmarkmiðum félagsins. Samkvæmt ákvæðum 66 gr. b ársreikningalaga skal hver og einn stjórnarmaður staðfesta með undirritun sinni að samkvæmt bestu vitneskju veiti skýrsla stjórnar glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem félagið stendur frammi fyrir. Með þessu ákvæði er verið að leggja áherslu á ábyrgð einstakra stjórnarmanna og umboðsskyldu þeirra að tryggja gæði þeirra upplýsinga sem haghafar þurfa að geta byggt á.
- Grunngreining (e. Fundamental analysis): Aðferðafræði við virðis- og lánshæfismat fyrirtækja sem byggir á því að greina afkomu félags út frá hæfi þess til að skapa virðisauka (hagsauka) í bráð og lengd auk þess að greina megináhættu og helstu óvissuþætti sem starfsemin stendur frammi fyrir. Viðbótarupplýsingar í skýrslu stjórnar eru afar mikilvægar upplýsingar að byggja á við framkvæmd grunngreiningar.
- Innri endurskoðun (e. Internal audit): Með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlits og stjórnarhátta og stuðlar þannig að því að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök nái markmiðum sínum. Innri endurskoðun veitir óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem ætlað er að vera virðisaukandi og bæta rekstur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.
- Hnitmiðaðar upplýsingar (e. Concise information): Upplýsingar sem með skýrum hætti veita lesanda góða innsýn í það sem um er fjallað.
- Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja: Leiðbeiningar gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir.
- Lög um ársreikninga: Lög nr. 3/2006 um ársreikninga með síðari breytingum. Í lögunum eru m.a. innleidd ákvæði tilskipunar ESB um ársreikninga og tengdar skýrslur og tiltekin ákvæði tilskipunar ESB um gagnsæi félaga með skráð verðbréf á markaði.
- Lykilmælikvarðar (e. Key performance indicators – KPIs): Upplýsingar sem settar eru fram til að varpa ljósi á árangur af starfsemi félags og stöðu þess. Upplýsingar þessar geta verið í formi lykiltalna (kennitalna).
- Markmið með fjárhagslegri upplýsingagjöf (e. Purpose of financial reporting): Samkvæmt skilgreiningu alþjóða reikningsskilaráðsins er markmiðið með fjárhagslegri upplýsingagjöf félaga að veita núverandi og framtíðar fjármagnveitendum gagnlegar upplýsingar til að nota við ákvarðanatöku um fjárfestingar eða sölu eignarhluta í viðkomandi fyrirtæki, lánveitinga til þess, nýta rétt sinn á hluthafafundum eða með öðrum hætti að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnenda um ráðstöfunum á virðisþáttum þess. Til fjárhagslegrar upplýsingagjafar í þessu samhengi teljast árleg reikningsskil félags sem stjórn skal staðfesta með undirritun sinni en einnig aðrar upplýsingar félags sem liggja utan árlegra reikningsskila þess.
- Meðalstórt félag: Félag sem fellur undir skilgreiningu þess að vera meðalstórt skv. skilgreiningu c liðar 11. töluliðar 2. gr. laga um ársreikninga.
- Megináhætta (e. Principal risk): Áhættuþættir sem einir og sér eða til samans geta haft veruleg áhrif á starfsemi félagsins, ógnaði orðspori eða viðskiptalíkani þess, gjaldhæfi eða möguleikum til fjármögnunar.
- Mikilvægar upplýsingar (e. Material information): Upplýsingar í ársreikningi teljast vera mikilvægar ef það getur haft áhrif á ákvarðanir notenda ársreiknings ef þeim er sleppt eða þær rangar. Við framsetningu á viðbótarupplýsingum í skýrslu stjórnar skal leggja áherslu á að veita upplýsingar sem teljast mikilvægar upplýsingar út frá þessari skilgreiningu og forðast að fjalla um í löngu máli um önnur atriði sem varðað geta notanda ársreiknings en eru ekki mikilvægar upplýsingar út frá þessari skilgreiningu.
- Óefnisleg eign (e. intangible asset): Eign sem er aðgreinanleg og ópeningaleg og ekki í hlutkenndu formi.
- Óendurskoðaðar fjárhagsupplýsingar: Upplýsingar sem liggja utan þess ársreiknings sem kjörin endurskoðandi félagsins skal í áritun veita álit sitt á byggt á endurskoðun sem framkvæmd hefur verið í samræmi við ákvæði alþjóðlegra endurskoðunarstaðla. Í 2. mgr. 104 gr. laga um ársreikning segir að í áritun endurskoðanda skulu einnig koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Í þessu felst hins vegar ekki þessar upplýsingarnar hafi verið endurskoðaðar.
- Ófjárhagslegar upplýsingar (e. Non-financial information): Ófjárhagslegar upplýsingar geta varðað mannauð og sérfræðiþekkingu félags, óefnislegar eignir og innviði sem starfsemin byggir á, umfjöllun um stöðu félagsins í samkeppnisumhverfi sem og upplýsingar um áhrif starfseminnar á náttúru og um samfélagsþætti og stefnumótun félagsins á þessum sviðum. Allt eru þetta þættir sem áhrif geta haft á hæfi félagsins til virðissköpunar í bráð og lengd eða sem varðar hagsmuni haghafa félags í víðara samhengi en teljast ekki til þeirra fjárhagsuupplýsinga sem settar eru fram í samræmi við ákvæði settra reikningsskilareglna.
- Ófjárhagsleg upplýsingagjöf í yfirliti (e. Non-financial information statement): Samkvæmt ákvæði 66. gr. d. gr. laga um ársreikninga skal í yfirliti með skýrslu stjórnar að lágmarki veita ófjárhagslegar upplýsingar um umhverfis- og samfélagsmál, starfsmannamál, stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar- og mútumálum (ESG-upplýsingar). Í reglugerð 696/2019 segir að í þeim tilfellum þar sem upplýsingar þær er veita skal, eru hluti af upplýsingagjöf stjórnenda í öðrum upplýsingum utan ársreikning skal í skýrslu stjórnar vísa til upplýsinganna með þeim hætti að ótvírætt sé að þær teljist í skilningi laga hluti af skýrslu stjórnar í ársreikningi. Sé þessi leið farinn er því nauðsynlegt að skýrslu stjórnar komi með skýrum hætti fram hvar þessar upplýsingar eru aðgengilegar haghöfum svo sem á heimasíðu félagsins og að þessum upplýsingum stjórnar til ársreikningaskrá með viðeigandi hætti og með áritun stjórnar.
- Ósamhverfar upplýsingar (e. Asymmetric information): Hugtak sem vísar til þess að annar aðili í viðskiptum býr yfir meiri upplýsingum en hinn þ.e. að aðilar á markaði hafa oft ólíkar upplýsingar að byggja á. Hætta á ósamhverfum upplýsingum áréttar mikilvægi aðgátar sem kaupandi þarf að viðhafa. Vegna umboðsskyldunnar og hættu á ósamhverfum upplýsingum eru lífeyrissjóðir almennt þeir aðilar sem gera hvað mestar kröfur til gagnsæis í rekstri þeirra félaga sem þeir fjárfesta í og sem leggja mesta áherslu á að virkja ábyrgð stjórnar viðkomandi félags að staðfesta í árlegum reikningsskilum þær upplýsingar byggt er á í grunngreiningum.
- Reikningsskilaráð: Reikningsskilaráð er skipað er af Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu til fjögurra ára í senn skv. 118. gr. laga um ársreikninga. Hlutverk reikningsskilaráðs er að stuðla að mótun settra reikningsskilareglna með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir við gerð reikningsskila. Ráðið skal gefa álit á því hvað teljast settar reikningsskilareglur á hverjum tíma. Ráðið skal starfa í nánu samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og hagsmunaaðila og getur verið stjórnvöldum til ráðuneytis.
- Reglugerð um framsetningu ársreiknings: Reglugerð Atvinnu og nýsköpunarráðuneytis 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðuársreikninga.
- Sannreynanlegar upplýsingar (e. verifiable information): Í reglu reikningsskilaráðs nr. 1 um grundvöll reikningsskila kemur fram að fyrir lesendur reikningsskila varði það miklu að þeir megi treysta því að upplýsingar í reikningsskilunum séu áreiðanlegar. Í því felst m.a. að þær verða að vera sannreynanlegar. Upplýsingar teljast sannreynanlegar ef sambærileg niðurstaða fengist þótt tveir eða fleiri aðilar fengjust við að vinna úr sömu upplýsingum. Þessi krafa um eiginleika upplýsinga í reikningsskilum felur einnig í sér að upplýsingarnar verðar að vera hlutlausar, en það táknar að semjandi hefur ekki beitt áhrifum sínum til að ná fyrirfram ákveðinni niðurstöðu eða til að kalla fram tiltekin viðbrögð af hálfu lesenda reikningsskila.
- Samfélagsskýrsla (e. CSR report): Skýrsla sem í flestum tilfellum telst til annarra upplýsinga utan ársreiknings þar sem fjallað er um áhrif starfsemi félagsins á umhverfi og samfélag og hvernig áhersla á samfélagsábyrgð og sjálfbærni skili viðkomandi félagi og samfélaginu auknum ávinningi. Í 66. gr. d. í lögum um ársreikninga er gerð krafa um að tilteknar upplýsingar, sem oft má finna í samfélagsskýrslu félaga, séu hluti yfirlits með skýrslu stjórnar í árlegum reikningsskilum sem stjórn skal staðfesta.
- Settar reikningsskilareglur: Reglur sem reikningsskilaráð gefur út á grundvelli 119. gr. laga um ársreikninga og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu.
- Sjálfbærni (e. sustainability). Hugtak sem vísar í samþættingu þriggja meginstoða: fólks, efnahags og jarðarinnar (e. people, profit, planet). Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Meginstoðirnar þrjár eru hluti af lokuðu kerfi. Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og auðlindanotkun getur ekki farið út fyrir þau mörk sem náttúran setur án þess að skaða almannahagsmuni til framtíðar.
- Sjálfsmat á stöðu áhættu og eftirlits (e. Risk and control self assessment): Formleg aðferðafræði við að greina megináhættu og óvissuþætti sem starfsemin stendur frammi fyrir, sem byggir á að virkja yfirsýn, innsýn og ábyrgð einstakra stjórnenda.
- Sjónarhóll stjórnunar (e. Through the eyes of management): Upplýsingagjöf sem byggir á stefnumiðum viðkomandi félags og skilgreindum meginmarkmiðum og í því sambandi innri upplýsingagjöf í stjórnendaskýrslum (e. management report).
- Skiljanlegar upplýsingar (e. understandable information): Í reglu reikningsskilaráðs nr. 1 um grundvöll reikningsskila kemur fram að upplýsingar í reikningsskilum verði að vera skiljanlegar til þess að þær komi að gagni við ákvörðun aðila um málefni þeirrar rekstrareiningar sem reikningsskilin taka til. Merking orðsins skiljanlegur í þessu samhengi takmarkast ekki aðeins við lýsingu á þeim kröfum sem gera verður til upplýsinga í reikningsskilum heldur verður einnig að hafa hliðsjón af þeim aðila sem þarf að taka ákvörðun um málefni fyrirtækis. Við gerð reikningsskila er almennt gert ráð fyrir að notendur þeirra hafi nokkra þekkingu á viðskiptum og því rekstrarumhverfi sem fyrirtæki starfar í. Mat semjanda á þekkingu lesenda á reikningsskilum má hins vegar ekki verða til þess að upplýsingum um flókin málefni sé sleppt i, komi þær að gagni. Forsenda um þekkingu lesanda á auk þess síður við hjá félögum með skráð verðbréf á markaði sem er opinn fyrir fjárfestingar almennings.
- Skýrsla stjórnar (e. management report): Skýrsla sem er hluti árlegra reikningsskila sem sett er fram í samræmi við ákvæði VI. kafla laga um ársreikninga og ákvæði IV kafla reglugerðar nr. 696/2019.
- Stefnumiðuð stjórnun (e. strategic management): Ferli sem stjórnendur fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka nota til þess að ná settum markmiðum.
- Stórt félag: Félag sem fellur undir skilgreining þess að vera stórt félag skv. skilgreiningu d. liðar 11. töluliðar 2. gr. laga um ársreikninga.
- Stærri félög: Er í þessum leiðbeiningum notað sem samheiti yfir meðalstór og stór félög skv. skilgreiningu laga um ársreikninga.
- Tvöfalt mikilvægi (e. Double materiality): Hugtak sem vísar til þess að við mat á því hvað er mikilvægt að upplýsa um þurfi að meta það sjálfstætt út frá annars vegar sjónarhóli félagsins sjálfs og hins vegar út frá sjónarhóli samfélags og umhverfis og áhrif félagsins (e. impact) á það. Í nýjum viðmiðum sem unnið er að á vettvangi m.a. ESB um sjálfbærni upplýsingar fyrirtækja (e. corporate sustainability reporting) er við mat á mikilvægi í upplýsingagjöf þessi nálgun í forgrunni.
- Tæknigreining (e. Technical analysis): Aðferð til ákvarðanatöku á fjármálamarkaði sem byggir á að rannsaka þróun verðs og viðskiptaveltu einstakra verðbréfa í fortíð, til að spá fyrir um verðþróun þeirra í framtíðinni.
- Umboðsskylda (e. Fiduciary duty): Hugtak sem varðar skyldu einstaklings eða stofnunar sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd umbjóðanda síns við aðstæður sem byggja á réttmætum væntingum um trúnað og traust. Umboðsskylda samanstendur af tveimur meginhugtökum. Annars vegar hollustuskyldu og hins vegar aðgæsluskyldu. Hið síðarnefnda felur í sér skynsemisreglu, þ.e. að sá sem fer með umboð annars starfi með aðgát, af kunnáttu og kostgæfni og að hann byggi í því sambandi ákvarðanir sínar á reglu hins grandvara manns (e. Prudent person principle).
- Umboðsvandi (e. Agency problem). Umboðsvandi felst í því að sá sem vinnur í umboði annars aðila getur freistast til að vinna að sínum hagsmunum fyrst og svo að hagsmunum umboðsveitandans. Umboðsvandi á m.a. við um stjórnendur félaga. Hagsmunir þeirra fara ekki alltaf saman með hagsmunum eiganda og að vegna ósamhverfar upplýsinga um m.a. árangur af starfsemi, stöðu og megináhættu hafa eigendur félaga oft ekki nægilega góða yfirsýn til að geta haft viðeigandi eftirlit með starfseminni og þurfa þeir því að treysta á upplýsingagjöf stjórnenda. Vegna þessa er staðfesting stjórnar á þessar upplýsingar afar mikilvæg.
- Verðbréfaeftirlit Evrópu (ESMA – European Securities and Market Authority): Samevrópsk eftirlitsstofnun á sviði verðbréfaeftirlits og eftirlits með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla (IFRS). Ársreikningaskrá fer hér á landi með eftirlit með reikningsskilum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð reikningsskila sinna og er það unnið í samráði við Verðbréfaeftirlit Evrópu.
- Viðbótar árangursmælikvarðar (e. Alternative Performance Measures – APMs): Mælikvarðar á árangur af starfsemi félags aðrir en þeir sem koma fram í framsetningu reikningsskila samkvæmt ákvæðum laga, reglugerðar og settra reikningsskilareglna. Evrópska verðbréfaeftirlitið hefur gefið út nánari leiðbeiningar um framsetningu viðbótar árangursmælikvarða fyrir félög með skráð verðbréf.
- Viðskiptalíkan (e. Business model): Framsetning á starfsemi félagsins þar sem áhersla er lögð á að skýra hvernig starfsemi þess skapar virði fyrir viðskiptavini og hagsauka fyrir aðra haghafa og lýsa skipulag starfseminnar með hliðsjón af þeim virðisþáttum sem starfsemin byggir á. Viðskiptalíkan er mikilvægt í skýrslu stjórnar til að setja upplýsingar þar í samhengi.
- Yfirlýsing stjórnarmanna: Yfirlýsing stjórnarmanns sem undirrituð hefur verið samkvæmt ákvæðum 66. gr. b. laga um ársreikninga. Í yfirlýsingunni skal koma fram að samkvæmt bestu vitneskju stjórnarmannsins sé ársreikningur saminn í samræmi við ákvæði laga og gefi glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu félagsins. Jafnframt skal koma fram að skýrsla stjórnar geymi glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættu- og óvissuþáttum sem félagið stendur frammi fyrir. Lagaákvæði um yfirlýsingu stjórnarmanna náði áður eingöngu til félaga með skráð verðbréf á markaði. Með lögum nr. 102/2020 nær ákvæðið nú einnig til stjórnarmanna annarra eininga tengda almannahagsmunum